Categories
Frétt

Þrjú lið áfram í Spurninga-keppninni

KÞað var mikið fjör og frábær mæting á fyrsta keppniskvöld í Spurningakeppni Strandamanna sem fram fór í Félagsheimilinu á Hólmavík sunnudaginn 15. mars. Það er að vanda Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir keppninni, en tólf lið skráðu sig til leiks í ár og sex þeirra kepptu fyrsta kvöldið. Þrjú komust því áfram í sex liða úrslit, en það voru lið Leikfélags Hólmavíkur, Hólmadrangs og Ferðaþjónustunnar Kirkjubóls. Ingimundur Pálsson var á svæðinu með myndavélina og smellti af í gríð og erg og afraksturinn má sjá að hluta hér fyrir neðan ásamt úrslitum kvöldsins. Þeir sem vilja sjá enn meira geta líka brugðið sér í heimsókn á myndasíðuna hans Munda.

K

Fyrsta viðureignin var á milli Félagsmiðstöðvarinnar Ozon og Leikfélags Hólmavíkur. Leikfélagið mætti með geysisterkt lið til keppni, en Ozon-liðar skemmtu sér og áhorfendum konunglega með fölskvalausri ánægju og takmarkalausri gleði yfir því að taka þátt. Hún reis hæst þegar liðið náði að giska á rétt ártal Vestmannaeyjagossins. Leikfélagið vann að lokum 11-6, en liðið á án efa talsvert mikið inni fyrir sex liða úrslitin.

saudfjarsetur/580-keppni09kvold1.jpg

saudfjarsetur/580-keppni09kvold5.jpg

Önnur viðureign kvöldsins var á milli Bíla- og kranaþjónustu Danna og Hólmadrangs. Bæði lið mættu einbeitt til leiks og munurinn á þeim var aldrei mikill. Frammistaða Ragnheiðar Ingimundardóttir í liði BK Danna hlaut mikið lof áhorfenda, en í síðustu bjölluspurningunum og síðan vísbendingaspurningunum sigu Hólmadrangsmenn verklega fram úr og höfðu að lokum sigur með 17 stigum gegn 9. Bíla- og kranaþjónustan mætir að líkindum enn sterkara til leiks á næsta ári.

saudfjarsetur/580-keppni09kvold2.jpg

Eftir hlé var síðan komið að þriðju og síðustu viðureigninni sem var á milli Ferðaþjónustunnar Kirkjubóls og liðs Kaupfélags Steingrímsfjarðar. Þessi keppni var spennandi frá upphafi til enda og munurinn yfirleitt ekki meiri en 2-3 stig. Ferðaþjónustuliðið var yfirleitt með forystuna sem skapaðist að miklu leyti í þemaspurningum kvöldsins sem fjölluðu um listafólk sem var fallið frá, en þar fékk liðið 3 stig en KSH ekkert. Í síðustu spurningu keppninnar gat KSH jafnað með því að svara rétt í fyrstu tilraun, en ekki hafðist það í þetta skiptið. Lokatölur urðu 15-11 Ferðaþjónustunni í vil.

Næsta keppniskvöld í Spurningakeppni Strandamanna fer fram nk. sunnudag kl. 20:00 í félagsheimilinu á Hólmavík.