26/04/2024

Skammdegisganga á miðvikudaginn

IMG_8188

Gönguklúbburinn Gunna fótalausa hefur staðið fyrir skammdegisgöngum í grennd við Hólmavík í hádeginu einu sinni í viku. Gengið hefur verið um Skeljavík og inn að Rostungskletti síðustu vikur. Nú er framundan þriðja skammdegisgangan í nóvember og verður hún í hádeginu miðvikudaginn 27. nóvember. Verður gengið frá flugstöðinni á Hólmavík kl. 12:05 og upp í Kálfanes. Stoppað verður við Gvendarbrunn hins góða og dreypt á vígðu vatni, rifjaðar upp tröllasögur um brenninetluna í Kálfanesi, rætt um afa Jóns lærða og stórbýlið kannað. Hádegisgöngur eru hugsaðar sem upplyfting og gleðigjafi í skammdeginu, þegar fjölmargir fara til vinnu í myrkri og heim aftur í myrkri.