04/10/2024

Skákhátíð í Árneshreppi 7.-9. júlí

Skákhátíð í Árneshreppi verður haldin dagana 7. til 9. júlí þar sem áhugamönnum gefst kostur á að spreyta sig gegn sumum bestu skákmönnum Íslands. Meðal þeirra sem þegar eru skráð til leiks eru Guðmundur Kjartansson, nýbakaður Íslandsmeistari, stórmeistararnir Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason og Lenka Ptacnikova og landsliðskonan Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir. Hátíðin hefst með tvískákarmóti og brennu í Trékyllisvík föstudagskvöldið 7. júlí kl. 20. Í tvískák eru tveir saman í liði, og iðulega afar heitt í kolunum.

Hápunktur hátíðarinnar verður laugardaginn 8. júlí í félagsheimilinu, minninningarmót Jóhönnu Kristjónsdóttur 2017. Jóhanna, sem lést 11. maí síðastliðinn, var meðal ötulustu liðsmanna Hróksins og hafði jafnframt sterk tengsl við Árneshrepp. Yfirskrift hátíðarinnar er sótt í kjörorð Jóhönnu: Til lífs og til gleði.

Minningarmótið hefst klukkan 14 og verða tefldar 8 umferðir, með 10 mínútna umhugsunartíma. Verðlaun á mótinu eru í senn vegleg og óvenjuleg, m.a. listaverk sem Guðjón Kristinsson frá Dröngum og Valgeir Benediktsson í Árnesi vinna sérstaklega af þessu tilefni. Þá verða ýmsir munir úr fjarlægum löndum, vegleg gjafabréf og fleiri vinningar. Á laugardagskvöldið verður hátíðarkvöldverður í félagsheimilinu, þar sem ýmislegt verður til skemmtunar, og verðlaun á minningarmóti Jóhönnu afhent.

Hátíðinni lýkur með hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði sunnudaginn 9. júlí kl. 12. Þar verða tefldar 5 mínútna skákir, 7 umferðir, og sigurvegarinn hlýtur nafnbótina Norðurfjarðarmeistarinn 2017.

Hrókurinn hefur um árabil efnt til skákviðburða í Árneshreppi og þangað hafa flestir bestu skákmenn landsins og fjölmargir áhugamenn lagt leið sína á skákmót og hátíðir.

Árneshreppur er afskekktasta og fámennasta sveitarfélag á Íslandi, en jafnframt eitt hið fegursta og stórbrotnasta. Það er Hróknum mikið gleðiefni að geta nú boðað til hátíðar undir kjörorðunum: Til lífs og til gleði.

  • Áhugasamir ættu að skrá sig sem fyrst hjá hrafnjokuls@hotmail.com eða chesslion@hotmail.com.
  • Góð tjaldstæði eru í Trékyllisvík og Norðurfirði.
  • Gistirými er takmarkað en reynt verður að hjálpast að við að koma öllum góðum gestum í hús!