22/12/2024

Sjómannadagsball á Café Riis á laugardagskvöld

Mikið verður um að vera á komandi laugardagskvöldi á Café Riis á Hólmavík en þá gefst sjómönnum og öllum öðrum sem vilja skemmta sér hraustlega í mati, drykk og dansi kærkomið tækifæri til að skvetta ærlega úr klaufunum með einum eða öðrum hætti. Heilmikið veisluborð verður í boði á veitingastaðnum þar sem í boði verður allskyns veisluföng að gömlum og góðum sið, en það er Bára Karlsdóttir sem mun matreiða ofan í gesti að hætti ömmu og tónlistarmaðurinn Stebbi Jóns á Hólmavík leikur svo fyrir dansi fram á nótt. Það eru sem flestir hvattir til að taka þátt í þessum hátíðarhöldum á Café Ris í tilefni af sjómannadeginum.

Einu fregnirnar sem hafa borist af hátíðarhöldum á Sjómannadaginn sjálfan á Ströndum sem verður næstkomandi sunnudag, eru þær að það verður kaffihlaðborð á Sauðfjársetrinu á Sævangi.