22/12/2024

Sjálfstæðisflokkurinn með 3 menn

Samkvæmt nýrri og viðamikilli könnun Capacent Gallup í Norðvesturkjördæmi er staðan nú þannig, mánuði fyrir kosningar, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur mest fylgi en Vinstri grænir hafa bætt mestu við frá síðustu kosningum. Átta þingmenn eru kjördæmakjörnir og fengi Sjálfstæðisflokkur þrjá þeirra ef kosið yrði nú (30,1%), en Vinstri grænir tvo (23%). Samfylking er með einn kjördæmakjörinn þingmann (15,7%), eins og Framsókn (13,7%) og Frjálslyndi flokkurinn (12,9%). Íslandshreyfingin er með 4,4% fylgi.


Ekki er víst hver næði í níunda þingsætið sem stendur til boða, uppbótar- eða jöfnunarsætið sem byggir að hluta til á atkvæðum sem falla dauð í öðrum kjördæmum. Samkvæmt útreikningum strandir.is yrði röð þingmannanna þessi ef þetta yrði niðurstaða kosninganna:

1. Sturla Böðvarsson – 1. maður hjá Sjálfstæðisflokki
2. Jón Bjarnason – 1. maður hjá Vinstri grænum
3. Guðbjartur Hannesson – 1. maður hjá Samfylkingu
4. Einar K. Guðfinnsson – 2. maður hjá Sjálfstæðisflokki
5. Magnús Stefánsson – 1. maður hjá Framsókn
6. Guðjón A. Kristjánsson – 1. maður hjá Frjálslyndum
7. Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir – 2. maður hjá Vinstri grænum
8. Einar Oddur Kristjánsson – 3. maður hjá Sjálfstæðisflokki
_________________________________________________

9. Karl V. Matthíasson – 2. maður hjá Samfylkingu
10. Björg Gunnarsdóttir – 3. maður hjá Vinstri grænum
11. Herdís Þórðarsdóttir – 4. maður hjá Sjálfstæðisflokki
12. Herdís Sæmundardóttir – 2. maður hjá Framsókn

Töluverðu munar á þeim átta kjördæmakjörnu og þeim sem næstir koma.