22/12/2024

Símasambandslaust norðan Trékyllisvíkur

Símasambandslaust hefur verið síðan seinnipartinn í gær fyrir norðan Trékyllisvík. Grafa sleit í sundur símakapal við nýju kirkjuna seint í gær, en verið er að girða hina nýju Árneskirkju af. Af þessum sökum var útibú Sparisjóðs Strandamanna á Norðurfirði lokað í dag, enda ekkert símasamband þar né tölvusamband. Að sögn viðgerðarmanns frá Símanum er reiknað með að símasamband verði komið á fyrir kvöldið.

Að jöfnu er útibú Sparisjóðsins á Norðurfirði opið alla daga frá eitt til fjögur nema á miðvikudögum. Útibú Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Norðurfirði var hins vegar opið að venju og hægt að greiða með tékkum, reiðufé eða taka vörur út í reikning þar.

Viðgerðarmenn að störfum – Ljósm. Jón G.G. – www.litlihjalli.it.is.