16/10/2024

Sigurður Guðmundsson á Mölinni


Sigurður Guðmundsson mun leika á aðventutónleikum Malarinnar sem verða haldnir á Malarkaffi á Drangsnesi mánudagskvöldið 17. desember næstkomandi.  Sigurður Guðmundsson er einn dáðasti tónlistarmaður landsins. Hann er landsmönnum að góðu kunnur fyrir störf sín með hljómsveitinni Hjálmum sem hefur um árabil verið ein vinsælasta hljómsveit landsins og gefið út fjölda hljómplatna með sínu einstaka lopapeysureggíi. Ásamt því að leika með Hjálmum hefur Sigurður leikið með fjölda hljómsveita og tónlistarmanna, má þar t.d. nefna Baggalút, Megas og nú nýverið Ásgeir Trausta.

Stjarna Sigurðar hefur þó eflaust risið hvað hæst á þeim þremur plötum sem hann hefur gefið út undir eigin nafni með Memfismafíunni. Á þeirri fyrstu flutti hann sígild sönglög, á annarri plötunni söng hann ný jólalög sem samstundis urðu sígild og á þeirri nýjustu fóru Sigurður og félagar til Kúbu og tóku upp frumsamin lög í félagi við kúbanska hljómlistamenn.

Á Mölinni mun Sigurður, einn og óstuddur, flytja sérstaka jóladagskrá og að vanda mun Borko leika nokkur lög áður en gestur Malarinnar hefur upp raust sína.

Húsið opnar kl. 21 og er aðgangseyrir 2000 kr.