22/12/2024

Sauðfjárbændur af Ströndum í kynnisferð um Húnaþing

Áður en sauðburður hófst af fullum þunga í vor efndi Félag Sauðfjárbænda í Strandasýslu til upplyftingarreisu fyrir félagsmenn og var tekið hús á nágrönnum Strandamanna austan Húnaflóa. Góð þátttaka var í ferðinni þrátt fyrir að bændur úr Árneshreppi ættu ekki möguleika á þátttöku vegna ófærðar. Eftir að bændum hafði verið safnað inn alla Strandasýslu var ákveðið að fá sér hressingu í Staðarskála. Reyndust það helstu mistök ferðarinnar því sem var Þóroddsstaðir í Hrútafirði beið hópsins hlaðið veisluborð í hlöðunni hjá þeim hjónum Gunnari og Matthildi. Og í sama anda voru móttökurnar á öllum fimm bæjunum sem heimsóttir voru.

Frá Þóroddsstöðum var haldið til Hvammstanga og farinn einn hringur um sláturhúsið undir leiðsögn Steinbjörns sláturhússtjóra. Sluppu allir heilir frá þeirri ferð öfugt við lömbin sem fóru sama hring í haust. Að skoðun lokinni beið okkar lambakjöt og kjötsúpa í boði sláturhúss KVH á Hvammstanga.

Nú var ætlunin að aka Vatnsneshringinn og í hópinn hafði bæst ágætur leiðsögumaður, Eggert Levy á Hvammstanga, en hann er uppalinn á austanverðu Vatnsnesi og gjörþekkir svæðið. Því var ekkert að vanbúnaði að halda áfram för og næst var stoppað á Sauðá hjá Ellert og Heiðu og Sauðadalsá þar sem  Heimir og synir hans Þormóður og Baldur tóku við forvitnum Strandamönnum. Þarna voru skoðuð tvö í hópi afurðahæstu búa landsins og áfram héldu veislur og fór nú að bera á höfgari drukk, jafnvel gullnum guðaveigum.

Næsti viðkomustaður var eitt af elstu steinhúsum landsins á Klömbrum í Vesturhópi en það var tekið í notkun 1878. Árið 1995 eftir að húsið hafði staðið lengi autt hóf eigandinn Eggert Levy og fjölskylda hans handa við endurbyggingu hússins og var því verki lokið á glæsilegan hátt árið 2000.

Nú var ferð fram haldið og ekið að Böðvarshólum þar sem Konráð og Ragna sýndu okkur glæný fjárhús með gjafagrindum og afar snyrtilegum og vel uppsettum innréttingum. Að síðustu var stoppað á Vatnshól hjá Halldóri Líndal og Katarinu. Þar voru einnig skoðuð ný og afar vel gerð fjárhús með heimasmíðuðum  gjafagrindum. Þar með var lokið bæði fróðlegri og ánægjulegri ferð um Vatnsnes og Hrútafjörð og kunna ferðalangar Húnvetningum bestu þakkir fyrir móttökurnar og Eggert fyrir leiðsögnina.

0

Guðbrandur formaður og Gunnar bóndi fara vandlega yfir hrútastofninn

bottom

Gunnar og Matthildur bændur á Þóroddstöðum

Guðbrandur afhendir Steinbirni sláturhússtjóra bókina Angurgapa

frettamyndir/2009/480-flandur1.jpg

Þormóður bóndi á Sauðadalsá við "barinn" umkringdur Strandamönnum

frettamyndir/2009/480-flandur3.jpg

Klambrar í Vestur-Hópi

frettamyndir/2009/480-flandur5.jpg

Eggert Lewy í eldhúsinu á Klömbrum

frettamyndir/2009/480-flandur7.jpg

Björgvin að leggja af stað inn fjárhúsin á Böðvarshólum

frettamyndir/2009/480-flandur8.jpg

Strandamenn við fjárhúsin á Böðvarshólum

frettamyndir/2009/480-flandur10.jpg

Konráð og Ragna bændur á Böðvarshólum

Ferðalok

– Ljósmyndir og texti Guðbrandur Sverrisson