26/12/2024

Samþykkt að selja Broddanesskóla á 2,1 milljón

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar voru tekin fyrir tilboð í Broddanesskóla, en Ríkiskaup hafði borist tvö slík. Hljóðaði hærra tilboðið frá Eysteini Einarssyni upp á 2,1 milljón, en það lægra upp á 350 þúsund. Fram kemur í fundargerðinni að í viðtali við Hermann Jóhannesson hjá menntamálaráðuneytinu hafi komið fram vilji til að taka hærra tilboðinu. Sveitarstjórn samþykkti með 3 atkvæðum gegn 1 að samþykkja tilboðið. Meirihluti J-lista í sveitarstjórn var algjörlega ósamstíga í málinu, einn greiddi atkvæði með, annar á móti og þriðji sat hjá. Skólinn sem er rúmlega 500 fermetra hús, 30 ára gamalt, var í sumar metinn á 18 milljóna virði af Fasteignamiðstöðinni.