23/12/2024

Samstarfsnefnd fundar á Drangsnesi

Samstarfsnefnd sveitarfélaga á Ströndum vegna sameiningar-kosninga á laugardaginn heldur kynningarfund í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi í kvöld kl. 20:00. Verður tillaga sameiningarnefndar og vinna samstarfsnefndar kynnt þar og spáð og spekúlerað í kostum og göllum hugsanlegrar sameiningar. Guðjón Bragason frá Félagsmálaráðuneytinu og Guðni Geir frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu koma á kynningarfundinn, en vafalaust hafa margir áhuga á að eiga við þá orð og fræðast um sameiningarmálin frá þeirra sjónarhorni. Fundurinn er að sjálfsögðu öllum opin hvar í sveit sem menn búa. Kaffiveitingar verða á boðstólum.


Kosningarnar sjálfar fara fram á laugardag og eru kjörstaðir á eftirtöldum stöðum: Félagsheimilinu Árnesi, Grunnskólanum Hólmavík, Grunnskólanum Drangsnesi og Broddanesskóla. Hægt verður að greiða atkvæði á milli kl. 12:00-18:00.