22/12/2024

Samkeppni um merki (lógó) fyrir Sjávarútvegsklasa Vestfjarða

Sjávarútvegsklasi Vestfjarða er samstarfsvettvangur sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum þar sem unnið er að sameiginlegum hagsmunamálum, svo sem markaðsmálum, þróunarstarfi, nýsköpun, menntun og innkaupum. Klasinn efnir nú til samkeppni um hönnun á merki fyrir Sjávarútvegsklasa Vestfjarða. Merkið verður notað í kynningarstarfi sem fylgja starfi sjávarútvegsklasans. Merkið þarf að vera hannað með það fyrir augum að það geti nýst á alþjóðlegum vettvangi og með sérstaka áherslu á helstu útflutningssvæði fyrir vestfirskar sjávarafurðir. 

Merkið þarf líka að vera hannað með það fyrir augum að hægt sé að nota það jöfnum höndum í innlendu markaðs- og kynningarstarfi. Þar af leiðandi mætti horfa á merkið sem hefðbundið fyrirtækjamerki, það gæti t.d. verið á umbúðum, birst í auglýsingum, sett á bréfsefni, sett á vefsíður og á annað kynningarefni.

Merkið skal hafa tilvísun í þá sérstöðu og þá ímynd sem vestfirskar sjávarafurðir standa fyrir og ber þar helst að nefna:

·         Hágæðaafurðir
·         Umhverfisvænleiki
·         Hreinleiki
·         Löng hefð í sjávarútvegi

Vonast er eftir fjölbreyttum hugmyndum. Merkið má vera að hámarki í þrílit og skila þarf merkinu inn rafrænt á pdf-formi. Ákjósanlegast er að merkið sé unnið í Illustrator eða sambærilegum teikniforritum. Hugmyndum þarf að skila inn fyrir 15. ágúst næstkomandi og sendast á Neil Shiran Þórisson á shiran@atvest.is ásamt upplýsingum um um hönnuð merkisins. Keppnin er opin öllum.

Veitt verða verðlaun fyrir besta merkið og er verðlaunaféð 100.000 kr.  og verður merkið keypt af viðkomandi keppenda.