22/12/2024

Samkeppni um merki fyrir Lækjarbrekku

Nemendur á LækjarbrekkuLeikskólanefnd Strandabyggðar hefur ákveðið að efna til samkeppni um merki fyrir leikskólann Lækjarbrekku í tilefni 20 ára afmælis leikskólans sem er 30. október næstkomandi. Leitað er eftir merki sem lýsir best einkunnarorðum skólans en þau eru gleði – virðing – vinátta. Öllum er heimilt að taka þátt í samkeppninni og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að taka þátt með börnum sínum. Vegleg verðlaun verða í boði fyrir það merki sem best uppfyllir fyrrgreind skilyrði. Valin hefur verið dómnefnd sem skipuð er Kolbrúnu Þorsteinsdóttur, Völu Friðriksdóttur, séra Sigríði Óladóttur sóknarpresti, Hafþóri Þórhallssyni og Viðari Guðmundssyni.

Skila þarf inn teikningum að merkinu á A4 blaði og einnig þarf að fylgja með á sér blaði útskýring á merkinu, hámark 250 orð. Skila ber inn umræddum gögnum undir dulnefni ásamt merktu, lokuðu umslagi sem geymir rétt nafn, heimilisfang og símanúmer keppanda. Innsendar teikningar mega ekki hafa sést áður á prenti og sú teikning sem verður fyrir valinu verður eign Lækjarbrekku og öðrum óheimilt að nota hana.

Skila skal inn umbeðnum gögnum á skrifstofu Strandabyggðar, Hafnarbraut 19, 510 Hólmavík í síðasta lagi 26. september 2008 fyrir kl. 15:00. Allar nánari upplýsingar eru veittar í síma 451-3411.