22/12/2024

Sameining sveitarfélaga á Vestfjörðum könnuð

Á Fjórðungsþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga sem eru samtök sveitarfélaga á Vestfjarðakjálkanum í byrjun september komu sameiningar sveitarfélaga nokkuð til umræðu. Kristján Möller ráðherra sveitarstjórnarmála var á þinginu og flutti erindi um fækkun sveitarfélaga og kom fram í máli hans að hann sér fyrir sér að Vestfjarðakjálkinn að Bæjarhrepp undanskildum yrði eitt sveitarfélag með rúmlega 7000 íbúa árið 2014, og segir að það sé nokkurn veginn lágmarksstærð til að geta tekið við stórum verkefnum frá ríkinu. Á Vestfjörðum eru nú 10 sveitarfélög, þar af 4 á Ströndum.

Nokkrar umræður urðu í framhaldinu. Fram kom í máli þingfulltrúa frá Ísafjarðarbæ og úr Bolungarvík, m.a. Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra á Ísafirði, að slík sameining hugnaðist þeim, en sveitarstjóri Súðavíkurhrepps Ómar Már Jónsson varð til andsvara og taldi vilja íbúa í minni sveitarfélögum ekki vera fyrir hendi og að ýmis rök mæltu gegn stórri sameiningu.

Fjórðungsþing samþykkti síðan ályktun um málið, í heildarályktun þingsins sem bar nafnið Vestfirðir í sókn. Það sem sneri að könnun á sameiningu sveitarfélaga bar yfirskriftina Samstarf sveitarfélag á Vestfjörðum og var svohljóðandi:

Fjórðungsþing felur stjórn Fjórðungssambandsins að hefja undirbúningsvinnu og athuganir á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaga á Vestfjörðum. Þar verði sérstaklega lögð áhersla á virka þátttöku íbúa á Vestfjörðum og kannaður vilji þeirra til mismunandi sameiningarkosta. Jafnframt felur Fjórðungsþing stjórn Fjórðungssambandsins að óska eftir því að stjórnvöld komi til móts við Fjórðungssambandið vegna kostnaðar við þessa mikilvægu vinnu. Niðurstaða um sameiningarkosti liggi fyrir eigi síðar en vorið 2012.

Fram hefur komið í fréttum eftir Fjórðungsþingið að ráðuneyti sveitarstjórnarmála hefur stofnað nefnd sem á að leggja hugmynd um sameiningarkosti fram strax á næsta ári og í framhaldinu verður frumvarp um sveitarfélagamörk lagt fyrir Alþingi til samþykktar. Þannig hefur verið snúið baki við þá stefnu að íbúar sveitarfélaga samþykki sjálfir sameiningar í kosningum.

Tengd frétt:    
Sveitarfélögum gæti fækkað í 17