22/12/2024

Rjúpa í morgunmatinn

Undanfarna daga hefur hópur af rjúpum flögrað um Hólmavík, en þær eru nú heldur en ekki farnar að færa sig upp á skaftið. Þegar Bríanna Jewel Johnson sem er átta ára opnaði útidyrahurðina einn morguninn og ætlaði að labba af stað í skólann, fékk hún flaksandi rjúpu í fangið. Rjúpan flaug síðan áfram sem leið lá inn í hús, flaug þar um og olli miklum usla, ruddi dóti úr gluggakistum og drullaði á gólfið. Uppi varð fótur og fit, en á endanum tókst Viktoríu Rán, mömmu Bríönnu, að handsama fuglinn. Að sögn Bríönnu var erfitt að ná stjórn á ástandinu: „Það var rosa basl að ná henni og á endanum reif mamma óvart helminginn af stélfjöðrunum af. Þegar við slepptum henni var stýribúnaðurinn bilaður og rjúpan sveigði alltaf til hægri á fluginu."

Rjúpan í Víkurtúninu – ljósm. Viktoría Rán