22/12/2024

Reykur án elds og pressað á skoðun

Lögreglu og slökkvistöð á HólmavíkÍ vikulegri fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að í síðustu viku var haldið áfram eftirliti með óskoðuðum bifreiðum. Á Hólmavík var eigendum 14 bifreiða gefinn sjö daga frestur til að mæta með bifreiðar sínar til skoðunar. Þrettán ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur, flestir innanbæjar á Ísafirði. Sá sem hraðast ók var stöðvaður á 86 km hraða á Skutulsfjarðarbraut þar sem hámarkshraðinn er 60 km. Á laugardaginn var lögregla og slökkvilið kallað að húsi á Hólmavík en mikill reykur var þar innandyra. Í ljós kom að pottur hafði gleymst á heitri eldavélarhellu. Húsið var reykræst en ekki er vitað um skemmdir.

Sjö umferðaróhöpp voru tilkynnt í síðustu viku. Á mánudeginum valt bifreið niður fyrir veg og endaði á hvolfi úti í sjó við Skarfasker í Hnífsdal. Ökumann sakaði ekki en bifreiðin er líklega ónýt. Þá fór bifreið fram af veginum um Kirkjubólshlíð og hafnaði í sjónum á miðvikudaginn. Ökumaður komst sjálfur upp á veg en var fluttur nokkuð kaldur á sjúkrahús. Hann mun hafa sloppið án meiðsla en bifreiðin var mikið skemmd. Á fimmtudaginn var bifreið ekið á ljósastaur skammt frá bensínstöð N1 á Flateyri. Ökumaður og farþegi sluppu án alvarlegra meiðsla en skemmdir urðu bæði á ljósastaurnum og bifreiðinni. Þessu til viðbóta valt bifreið á Kleifaheiði sama dag. Ökumaður var einn í bifreiðinni og slapp hann án meiðsla. Önnur umferðaróhöpp sem tilkynnt var um reyndust minniháttar.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum voru gerðar húsleitir í tveimur húsum á Þingeyri síðastliðinn fimmtudagsmorgun þar sem grunur lék á að íbúar þar tengdust fíkniefnaneyslu og dreifingu fíkniefna. Tveir menn voru handteknir og hald lagt á rúm 60 grömm af hassi. Lögreglan á Vestfjörðum naut aðstoðar lögreglumanns með fíknefnaleitarhund frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í þessum húsleitum.