22/12/2024

Réttarkaffi og Réttir í Sævangi á sunnudag

Brian BergSunnudaginn 20. september verður haldið réttarkaffi í Sauðfjársetrinu í Sævangi við Kirkjubólsrétt. Hlaðborðið verður opið frá kl. 13-17 og þar verður gómsætt bakkelsi selt gegn vægu verði að vanda. Á sama tíma opnar í kaffistofunni sýningin Réttir, en hún samanstendur af glæsilegum verkum ljósmyndarans Brian Berg sem teknar eru í Skeljavíkurrétt og nágrenni haustið 2008. Sýningin er sett upp í samstarfi Þjóðfræðistofu og Sauðfjársetursins. Ókeypis er inn á sýninguna sem og aðrar sýningar Sauðfjársetursins. Byrjað verður að rétta í Kirkjubólsrétt kl. 14:00.

Brian Berg hefur starfað bæði sjálfstætt sem ljósmyndari sem og á vegum dagblaða á borð við Berlingske Tidende. Nám stundaði hann við Dönsku fjölmiðlaakademíuna og Fata Morgana þar sem hann nam listræna ljósmyndun hjá Morten Bo.  Hann hefur sýnt myndir sínar m.a. á Danska þjóðminjasafninu, haldið sýningu um landlausa frumbyggja Mið-Ameríku og birt ljósmyndir í tímaritsseríum um hversdagslíf í Bandaríkjunum. 

Brian hefur unnið að margvíslegum verkefnum fyrir Þjóðfræðistofu svo sem ljósmyndasýninguna Kvikt landslag sem sýnd var í tilefni af alþjóðlegu ráðstefnunni Leiðir að landslagi/Routes to Landscape sem haldin var á Ströndum.  Í undirbúningi er nú samstarfsverkefni Þjóðfræðistofu og Brian um rekavið á Ströndum. Hann vinnur nú einnig að bókum um Samíska menningu og lífshætti annars vegar og Berlínarmúrinn hins vegar.