14/04/2024

Póstkosning hjá Framsókn framundan

Framsóknarmönnum í Norðvesturkjördæmi hefur fjölgað um fjórðung frá því að kjördæmisþing flokksins ákvað að efna til póstkosningar um skipan framboðslista flokksins í kjördæminu. Þetta kemur fram á vefnum www.skessuhorn.is. Kjörseðlar verða sendir út til félagsmanna í vikunni og þeim á að skila fyrir 17. nóvember. Þann dag fer talning atkvæða fram á Borðeyri í Hrútafirði sem er miðsvæðis í kjördæminu.

Í fréttinni á Skessuhorn segir ennfremur:

"Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins segir í samtali við Skessuhorn að þegar kjördæmisráð tók ákvörðun um póstkosningu í september hafi flokksmenn í kjördæminu verið um 2.000 talsins. Kjörskrá við póstkosninguna var hins vegar miðuð við 20. október og þá hafði flokksmönnum fjölgað um rúmlega 500 og eru þeir því í dag tæplega 2.600 talsins. Sigurður sagði þessa fjölgun ekki einsdæmi í flokknum. Slíkt hefði gerst áður í aðdraganda prófkjörs og póstkosninga. Hann sagði flokksmönnum hafa fjölgað víðast hvar í kjördæminu en mest væri þó fjölgunin í félögum á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum.
 
Eins og fram hefur komið í fréttum sækjast átta manns eftir sæti á framboðslista flokksins í kjördæminu þar af sækjast tveir eftir fyrsta sæti listans þeir Kristinn H. Gunnarsson og Magnús Stefánsson."