22/12/2024

Nýtt mjólkurfélag á Íslandi

Eins og sagt var frá hér á strandir.saudfjarsetur.is á dögunum þá hefur rekstri matvöruverslunar á Borðeyri verið hætt. Það hafa verið töluverð viðbrigði fyrir íbúa Bæjarhrepps og nærsveita að ná ekki í nauðsynjavöru dags daglega. Fólk finnur þó verst fyrir því að hafa ekki stöðugan aðgang að mjólkurvörum. Í dag er styst að sækja verslun hjá Samkaup í Búðardal, en þangað eru rúmir 40 km frá Borðeyri og um 50 km ef farið er í Kaupfélagið á Hvammstanga.

En vandinn hefur nú verið leystur hvað mjólkurvörurnar varðar. Stofnað var félag sem nefnist Mjólkurfélag Bæhreppinga sem flest heimili í Bæjarhreppi standa að. Hefur nú hver og einn möguleika á að vera með fasta pöntun tvisvar í viku í þær mjólkurvörur sem hann þarf. Stór kælir, sem Mjólkursamsalan skaffaði, er staðsettur í ákveðnu íbúðarhúsi á Borðeyri. Mjólkursamsalan í Búðardal skaffar vörurnar og koma þær með mjólkurbílnum að vestan tvisvar í viku. Húsráðandi sér svo um að ganga frá vörunum í kælinn sem allir félagsmenn hafa svo aðgang að og afgreiða sig sjálfir.

Meiningin er að reka þetta mjólkurfélag fram til haustsins og sjá svo til með framhaldið. Að sögn þeirra Ingibjargar Rósu Auðunsdóttur á Kollsá og Jónu Guðrúnar Ármansdóttur í Laxárdal, sem hafa haft veg og vanda af að koma þessu á laggirnar, þá hefur þetta gengið mjög vel þær vikur sem liðnar eru frá stofnun félagsins. Kunna þær Mjólkursamsölunni bestu þakkir fyrir að sýna einstaka lipurð á allan hátt við að gera þetta mögulegt.