14/06/2024

Nýir eigendur að Café Riis

Café Riis á HólmavíkMagnús H. Magnússon og Þorbjörg Magnúsdóttir veitingamenn á Café Riis á Hólmavík hafa gengið frá sölu veitingahússins, en það hefur verið til sölu um nokkra stund. Formleg eigendaskipti verða þann 1. apríl næstkomandi. Að sögn Magnúsar er nýr eigandi Café Riis, fyrirtækið Fjarðarklettur í Hafnarfirði en eigandi þess er Eðvarð Björgvinsson. Gengið var frá sölunni í gær.

Magnús og Þorbjörg opnuðu Café Riis þann 15. júní 1996 eftir mikla endurbyggingu á húsnæðinu, en húsið var upphaflega byggt af dönskum kaupmanni, Richard Peter Riis árið 1897. Aðspurður segir Magnús að eftir níu ára starfsemi í veitingabransanum sem hann dregur sig brátt út úr, standi helst upp úr hvað hann hafi kynnst mörgu og skemmtilegu fólki í gegnum tíðina. Hann veit ekki hverjar helstu áherslubreytingar verði með nýjum eigendum, en að það sé oftast þannig að með nýju fólki fylgi nýjar hugmyndir.

Eftirminnilegasti viðburðurinn segir Magnús vera 15. júní 1996, þegar Café Riis opnaði og ekki síður allur aðdragandi að opnuninni sem hafi verið afar lærdómsríkur og skemmtilegur tími.

Með í kaupunum fylgir Bragginn á Hólmavík, sem var um árabil aðalsamkomustaður Hólmvíkinga og þau Magnús og Þorbjörg hafa einnig gert myndarlega upp. Þau óska nýjum eiganda velfarnaðar og vona að hann eigi eftir að reynast ferðaþjónustu á Ströndum vel í framtíðinni.

Þess má geta að Café Riis verður opið annað kvöld eftir Idol keppnina á Stöð 2.


Café Riis á Hólmavík.