23/12/2024

Nú hefst tippið!

Eins og áður hefur komið fram eru það Liverpool garpurinn Þröstur Áskelsson á Hólmavík og Arsenal hetjan Jón Jónsson á Kirkjubóli sem leiða saman hesta sína í fyrstu umferð tippleiksins á strandir.saudfjarsetur.is. Þeir hafa nú báðir lokið við spárnar sínar og hér að neðan eru þær birtar í heild sinni ásamt ýmsum skemmtilegum athugasemdum sem kapparnir létu flakka um leiki helgarinnar. Það verður að segjast að spár þeirra eru oft á tíðum furðu líkar, eins og sjá má:

1. Tottenham – Chelsea
Þröstur: Tottenham komnir með helv. gott lið, og verða erfiðir heim að sækja. Chelski, með alla sína miljarða, nær að punga út jafntefli. Tákn: X.

Jón: Þetta verður leikur kattarins að músinni. Það sem kemur öllum á óvart er að það verður Tottenham sem verður kötturinn í innbyrðis viðureignum þessara liða þetta árið. Chelsea-menn halda að þeir séu búnir að vinna deildina eftir 2 leiki. Fall er drambi næst, þeir eiga eftir að reka sig á. Tákn: 1.
+++

2. Fulham – Everton

Þröstur: Everton mun ekki ná að fylgja eftir góðu gengi síðustu leiktíðar, og steinliggja gegn annars misjöfnu liði Fulham! (Heiðar með amk. 1. hmmm). Tákn: 1.

Jón
: Everton hefur ekki byrjað nógu vel, en þeir eiga eftir að komast á beinu brautina í vetur. Tákn: 2.

+++

3. West Ham – Bolton
Þröstur: Bolton gengið upp og niður í byrjun leiktíðar, og verða í tómu tjóni gegn nýliðum West Ham. Tákn: 1.

Jón
: Jafntefli. Dómarinn verður maður leiksins. Tákn: X.
+++

4. Aston Villa – Blackburn

Þröstur: Þetta verður svartur dagur hjá Blackburn, Villa verður ekki í vandræðum með þá. Tákn: 1.

Jón
: Aston Villa fer létt með þennan leik, stærsti sigurinn þessa umferðina, svona 5-0 giska ég á. Tákn: 1.
+++

5. Man. City – Portsmouth


Þröstur
: Portsmouth verður í fallbaráttunni í vetur. City er óútreiknanlegt lið, en sterkur heimavöllur þeirra skilar þeim 3 stigum. Tákn: 1.

Jón
: City vinnur Portsmouth eftir mikinn barning, þetta eru jöfn lið. Heimavöllurinn blívur. Tákn: 1.

+++

6. Wigan – Sunderland

Þröstur: Nýliðaslagur, blablablablabla… Wigan tekur það. Tákn: 1.

Jón
: Wigan eiga skilið að sigra eftir að hafa tapað naumlega fyrstu tveimur leikjunum þetta árið. Nú er tækifærið, andstæðingarnir ná ekki saman sem heilsteypt lið. Þetta er að vísu dálítil óskhyggja en samt – heimasigur. Tákn: 1.

+++

7. Leicester – Luton

Þröstur: Naumur heimasigur. Tákn: 1.

Jón
: Leicester rúllar yfir Luton, þeir sjá aldrei til sólar í leiknum. Tákn: 1.

+++

8. Cardiff – Wolves

Þröstur: Cardiff fellur í vor, og verða auðveld bráð fyrir Úlfana. Tákn: 2.

Jón
: Ég hef nú alltaf haft gaman af Úlfunum og spái þeim því sigri um helgina. Tákn: 2.

+++

9. Sheff. Utd. – Coventry

Þröstur: Coventry kemur á óvart og nær jafntefli gegn sterku liði Sheff. Utd. Nei, Addi hafði engin áhrif á þessa spá mína, alls enga. Tákn: X.

Jón
: Markalaust jafntefli í stórskemmtilegum leik – markverðirnir verða í aðalhlutverki. Tákn: X.

+++

10. Burnley – Derby

Þröstur: Ömurleg lið, ömurlegur leikur, ömurlegur útisigur, ömurlegt! Tákn: 2.

Jón
: Veit ekkert um þessi lið. Þau eiga ábyggilega bæði eftir að gera mörg jafntefli þennan veturinn. Tákn: X.

+++

11. Southampton – Crewe
Þröstur: Ég þoli ekki Southampton, og fagnaði ég mikið þegar þeir féllu, EN, ég þoli Crewe ennþá síður. Niður með Crewe! Tákn: 1.

Jón
: Bíddu nú við, eru þessi lið í sömu deildinni? Afar einkennilegt. Southampton valtrar yfir Crewe. Tákn: 1.

+++

12. Norwich – Leeds

Þröstur: Hreiðar bróðir verður ekki ánægður með þessa spá mína, en Norwich er einfaldlega með besta mannskapinn í deildinni, og verður sigur þeirra upphafið á góðu gengi þeirra eftir slaka byrjun. Tákn: 1.

Jón
: Maður hefur nú haldið í nokkur ár að Leeds sé alveg við það að springa út og leikmennirnir hljóti að fara að ná saman. Það gerist hins vegar ekki um helgina og líklega ekki næstu árin. Tákn: 1.

+++

13. C. Palace – Stoke

Þröstur: Íslendingaliðið Stoke heldur áfram að geta ekki neitt. (hafa ekki getað neitt síðan þeir ráku Guðjón). Palace rúllar yfir þá. Tákn: 1.

Jón
: Palace ætti að vinna þennan leik auðveldlega. Hlutabréfin í Stoke hríðfalla um helgina. Tákn: 1.

+++

Það verður gaman að fylgjast með því hvað gerist á laugardaginn, en baráttan er þegar hafin – Þröstur er ansi sigurviss í bréfinu sem hann sendi stjórnanda leiksins: 

Jón Jónsson verður engin fyrirstaða fyrir tippsérfræðingin, því, eins og liðinu hans, Arsenal, er honum farið að förlast listin, og hefði því honum verið betra heima að sitja en af stað fara. Með Liverpoolkveðju, Þröstur. You’ll never walk alone.

Nú er bara að bíða og sjá hvort sjálfsöryggið fleyti Þresti áfram í næstu umferð!