22/12/2024

Myndir frá söguslóðum Fjalla-Eyvindar og Höllu í Drangavíkurfjalli

Í febrúar síðastliðnum hélt Kjartan Ólafsson, fyrrverandi alþingismaður og ritstjóri, stórmerkilegan fyrirlestur í Skelinni – lista- og fræðimannadvöl Þjóðfræðistofu á Hólmavík – sem bar heitið Nýjar fréttir af Fjalla-Eyvindi á Ströndum. Þar var sagt frá skjölum sem Björk Ingimundardóttir skjalavörður fann fyrir nokkru á Þjóðskjalasafni, þar sem greint var frá dvöl Eyvindar og Höllu í Drangavíkurfjalli á Ströndum, barnsfæðingu þar og handtöku þeirra vorið 1763. Einnig er í skjölunum fjallað um yfirheyrslur og réttarhöld yfir þeim í Árnesi í Trékyllisvík og á Hrófbergi við Steingrímsfjörð sama vor og dóm sem upp var kveðinn á Broddanesi í Kollafirði. Björk vinnur nú að grein um skjölin fyrir Strandapóstinn.

Þá voru sýndar myndir af ævintýralegri ferð Kjartans og félaga hans síðastliðið sumar að skoða klettasylluna þar sem hreysi þeirra var. Er hún í miðju klettabelti í Drangavíkurfjalli ofan við bæinn, norðan til við gil sem hægt er að ganga upp. Það var Sigurjón Gunnarsson sem tók þær myndir sem birtar eru hér. 

Búast má við að áhugamenn um Eyvind og Höllu vilji í framtíðinni heimsækja klettasylluna þar sem hreysi þeirra var og er því rétt að hvetja menn til að fara að öllu með gát.

Kjartan

frettamyndir/2011/640-eyvindarhilla8.jpg

frettamyndir/2011/640-eyvindarhilla5.jpg

frettamyndir/2011/640-eyvindarhilla2.jpg

Klettasylla í Drangavíkurfjalli þar sem hreysi Fjalla-Eyvindar og Höllu var – ljósm. Sigurjón Gunnarsson