23/12/2024

Mótorhjólamessa á Hólmavík

Von er á fjölda mótorhjólamanna til Hólmavíkur, í tilefni af mótorhjólamessu í Hólmavíkurkirkju sunnudaginn 20. júní, kl. 14:00. Einnig verður kvöldvaka á vegum hópsins í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 21 á laugardagskvöld. Prestar í mótorhjólamessunni verða sr. Gunnar Sigurjónsson og  sr. Íris Kristjánsdóttir, en slíkar messur hafa verðið haldnar árlega í Digraneskirkju frá árinu 2006. Þetta mun vera í annað sinn sem mótorhjólamessa er haldin á landsbyggðinni, en slík var haldin í Hagakirkju á Barðaströnd síðasta sumar. 

Mótorhjólamessan tekur mið af ýmsum hefðum sem skapast hafa í "mótorhjólaheiminum", bæði hvað varðar tónlist og annað. Hún er því nokkuð frábrugðin hefðbundnu helgihaldi. Messan er alvöru messa, með prédikun og altarisgöngu, svo það er ekkert slegið af í helgihaldinu, þó umbúnaðurinn sé sveipaður léttleika. 
Prestarnir (sem verða að vera mótorhjólafólk) eru búnir sama klæðnaði og viðbúið er af vélhjólafólki (hefðbundnum öryggisbúnaði vélhjólamanna). Leður og Goretex er því "viðeigandi" klæðnaður.

Mótorhjólamessan er samstarfsverkefni Þjóðkirkju og Hvítasunnu og hafa prestar frá báðum þessum kirkjudeildum annast  helgihald.