02/05/2024

Mögnuð Jónsmessunótt á Galdrasafninu

 

galdrasyning

Framundan er töfrum þrungin stund á Galdrasafninu á Hólmavík, en eins og allir vita gerist margt sérkennilegt á Jónsmessunótt sem er framundan. Kýrnar tala mannamál, óskasteinar fljóta upp í tjörnum og sjó, töfrajurtir verða sérlega áhrifamiklar og það er margreynt að þeir sem velta sér upp úr dögginni á Jónsmessunótt fá óskir sínar uppfylltar og verða hamingjusamir. Hvergi í heiminum er döggin magnaðri og áhrifaríkari en á Galdrasafninu á Hólmavík. Því ætla menn og konur að safnast saman við Galdrasafnið í kvöld, bergja á seyði af tröllasúru og flagahnoðra, kveða nokkrar stemmur og velta sér upp úr dögginni. Allt verður þetta gert með brosi á vör og hefst gleðskapurinn klukkan hálftólf, kl. 23:30 á Kaffi Galdri á Hólmavík. Þess má geta að Galdrasafnið hóf starfsemi þessa stund fyrir fjórtán árum.