22/12/2024

Mjög góður árangur af borun á Klúku

Borun eftir heitu vatni við Klúku í Bjarnarfirði er nú lokið og var árangur mjög góður. Samkvæmt vef Íslenskra orkurannsókna www.isor.is er borholan um 330 metra djúp og gefur um 16 l/sek af tæplega 50°C heitu vatni í fríu rennsli, en um 25 l/sek með 10 metra niðurdrætti. Að boruninni stendur Hitaveita Drangsness með tilstyrk Orkusjóðs. Nægt vatnsmagn fékkst og er nú hægt að leggja hitaveitu á næstu bæi. Á Klúku var áður skóli, en nú er Hótel Laugarhóll rekinn þar. Á Klúku er einnig 25 metra útisundlaug og sýningin Kotbýli kuklarans sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum. Auk þess er þar gömul hlaðin baðlaug sem nefnist Gvendarlaug.

Íslenskar orkurannsóknir sáu um rannsóknir, staðsetningu á borholu og eftirlit með borun. Verkefnisstjóri af hálfu ÍSOR er Haukur Jóhannesson en Árni Kópsson boraði með jarðbornum Jökli.

bottom

Óskar Torfason hitaveitustjóri (t.v.) og Árni Kópsson borstjóri (t.h.) virða fyrir sér heita vatnsbununa. Ljósm. Jenný Jensdóttir.

frettamyndir/2008/kluka_strandas_vatn.jpg

Jarðborinn Jökull á borstað ofan við sundlaugina á Klúku í Bjarnarfirði. Ljósm. Jenný Jensdóttir.