29/03/2024

Vegagerð á Ströndum frestað

Samkvæmt frétt á ruv.is mun Vegagerðin hvorki bjóða út né ganga til samninga vegna nýrra framkvæmda að svo stöddu, eða þar til áætlanir um ríkisfjármál hafa verið endurskoðaðar. Samgönguráðuneytið sendi Vegagerðinni í síðustu viku bréf frá fjármálaráðuneytinu þar sem fram kemur að ekki skuli efnt til neinna nýrra útgjaldaskuldbindinga. Í því felst m.a. að tímabundið má hvorki bjóða út verkefni né ganga til samninga sem fela í sér skuldbindingar um útgjöld á þessu eða næstu árum.

Magnús V. Jóhannsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Norðvestursvæði, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í dag að vissulega hefði þetta áhrif á svæðinu, þrátt fyrir að erfitt væri að sjá fyrir hversu mikil. Næstu verkefni Vegagerðarinnar á svæðinu var útboð 15 kílómetra kafla í Kjálkafirði. Þá stóð til að bjóða út jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, sem Magnús segir að ef allt væri eðlilegt hefði verið hægt að bjóða út næsta haust.

Næstu verk á Norðvestursvæði sem fyrirhuguð voru á árinu 2009 voru svo Strandavegur í Steingrímsfirði, frá Staðará að Geirmundarstöðum sem var sérstakt flýtiverkefni ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar á þorskafla. Þá ætlaði Vegagerðin að bjóða út vegagerð í Bjarnafirði snemma árs 2009, en útboði á því verkefni hafði áður verið frestað frá þessu ári þrátt fyrir að fjárveiting væri í vinnuna við verkið sjálft í Samgönguáætlun árið 2008. Þá var nýlega komið inn á útboðslista Vegagerðarinnar verkefni á Laxárdalsheiði úr Hrútafirði yfir í Dali sem átti að bjóða út fyrir áramót. Nú er hins vegar alls óvíst hvert framhaldið verður með þessi verk.

Endurskoðun stendur yfir á vegaáætlun og ekki verður ráðist í nýjar skuldbindingar, boðin út verk eða samið um þau fyrr en Vegamálastjóri fær heimild til þess hjá samgönguráðherra.