06/01/2025

Minnisvarði um Spánverjavígin afhjúpaður

Baskavinafélagið á Íslandi stendur að afhjúpun minnisvarða um Spánverjavígin við Galdrasafnið á Hólmavík miðvikudaginn 22. apríl kl. 13:00 og eru allir hjartanlega velkomnir á athöfnina. 400 ár eru nú á þessu ári liðin frá þeim voðaverkum. Stutt ávörp verða flutt við þetta tækifæri, m.a. tala Illugi Gunnarsson menningarmálaráðherra, Martin Garitano héraðsstjóri í Gipuzkoa í Baskalandi,  Esther Ösp Valdimarsdóttir tómstundafulltrúi fyrir hönd Strandabyggðar og Jónas Guðmundsson sýslumaður Vestfjarða. Þá verða atriði til skemmtunar, Tapio Koivukari fer með sjóferðabæn, Xabier Irujo og Magnús Rafnsson standa fyrir táknrænni sáttagjörð og Steindór Andersen fer með vísur úr Fjölmóði eftir Strandamanninn Jón lærða Guðmundsson. Börn úr leikskólanum á Hólmavík syngja og sýna myndir. Öllum áhugasömum íbúum Stranda og nágrannasveita er boðið að vera við athöfnina. Dagskrá ársins í tengslum við 400 ára minningu Spánverjavíganna má finna á vefnum baskavinir.is