22/12/2024

Menntamálaráðuneytið gerir samning við Þjóðfræðistofu til þriggja ára

Katla Kjartansdóttir tekur á móti menningarverðlaunum fyrir SkelinaFréttatilkynning
Þjóðfræðistofa fagnar nú um stundir stórum áfanga í sínu starfi sem er samningur Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um þriggja ára rekstrarframlag vegna Þjóðfræðistofu. Frá 2008 hefur Þjóðfræðistofa fengið árlegan stuðning frá ráðuneytinu, en einnig hafa miklu skipt margvíslegir rannsóknar – og menningarstyrkir. Kristinn Schram, forstöðumaður Þjóðfræðistofu, og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hafa nú þegar undirritað þriggja ára samning við Strandagaldur ses um rekstrarstyrk til Þjóðfræðistofu en hann tók gildi 1. janúar 2012. 

Meginmarkmið með samningnum er að að tryggja áframhaldandi starfsemi  Þjóðfræðistofu, stuðla að metnaðarfullum rannsóknum og miðlun þjóðfræða. Samingurinn miðar einnig að auknu samstarfi og samþættingu rannsókna, fræðastarfs, menningarstarfsemi, menntunar og atvinnuþróunar á starfssvæði stofnunarinnar. Miðlun fer fram með fjölbreyttum hætti – jafnt á ritrýndum vettvangi og með annarri útgáfu; í kennslu og fyrirlestrarhaldi; í sýningum og í dagskrá- og heimildamyndagerð.

Unnið er að samfélagsdrifnum fræðslu- og menningarverkefnum ásamt lista- og fræðatengdum miðlunar- og þróunarverkefnum. Þar má nefna árlegt Húmorsþing, Frásagnasafnið og Skelina – lista- og fræðimannadvöl á Hólmavík. Fjölbreytt menningar- og fræðsludagskrá hefur verið á boðstólnum þá tvo vetur sem hún hefur verið starfrækt og hefur hún verið í góðu samstarfi við heimamenn, ekki hvað síst Grunnskóla Hólmavíkur. Fékk hún Menningarverðlaun Strandabyggðar 2011 og hefur notið stuðnings Strandabyggðar og Menningarráðs Vestfjarða.

Vettvangur Þjóðfræðistofu er jafnt í höfuðstöðvum hennar á Ströndum, vítt og breitt um landið sem og í víðtæku samstarfi við fræðasamfélagið innanlands sem utan.

Fimmtudaginn 12. janúar næstkomandi mun Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og starfsmenn ráðuneytissins, sækja Þjóðfræðistofu heim. Vonum við að allir þeir sem láta sig fræðslu- og menningarmál varða fagni með okkur þessum áfanga.