22/12/2024

Menntamálaráðherra kemur á Menntaþing á Hólmavík

Menntaþing verður haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 12. janúar 2012 og er menntamálaráðherra meðal gesta þingsins. Menntaþingið hefst kl. 16:30, en þar verður fjallað um mikilvægi þroska og menntunar fólks á öllum aldursstigum. Þingið er liður í 100 ára afmæli skólahalds á Hólmavík. Afmælinu hefur m.a. verið fagnað með glæsilegri leiksýningu Grunn- og Tónskólans á Hólmavík þar sem nemendur og kennarar rifjuðu upp 100 ára sögu skólahaldsins í leikgerð Arnars S. Jónssonar tómstundafulltrúa Strandabyggðar. Þá hélt sveitarfélagið veglega afmælishátíð síðastliðið vor. Á Menntaþinginu nú verður horft til framtíðar og hvert er stefnt í skólahaldi á Ströndum.

Allir íbúar á Ströndum og í nágrannasveitarfélögum sem og aðrir landsmenn eru boðnir hjartanlega velkomnir á þingið.

Frá þessu er sagt á www.strandabyggd.is. Meðfylgjandi mynd er frá verðlaunaafhendingu í haust þegar Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti krökkum af Ströndum verðlaun í myndbandakeppni 66°Norður.