12/12/2024

Menningarveisla á Ströndum

Þeir sem gaman hafa af mannfagnaði hafa nóg að iðja um helgina, því mörg krásin skreytir nú veisluborð menningar og lista á Ströndum. Í kvöld verður söngskemmtun Álftagerðisbræðra á Café Riis á Hólmavík og hefst kl. 20:30. Nokkru fyrr um daginn hefst heilmikið veisluhlaðborð á Riis. Á laugardagskvöldi verður síðan dansleikur á Café Riis þar sem hljómsveitin Kokteill frá Raufarhöfn treður upp. Á sunnudaginn verður síðan hið landskunna Meistaramót í Hrútadómum á Sauðfjársetrinu í Sævangi, með tilheyrandi kaffihlaðborði og sprelli. Hefst það kl. 14:00.

Strandamenn troða einnig upp utan héraðs um helgina, á laugardaginn kynnir Jón Jónsson þjóðfræðingur Galdrasýningu á Ströndum í Þjóðminjasafninu í tilefni af menningarnótt í Reykjavík. Kynningarnar eru kl. 12:00 og 15:30 og eru hluti af viðamikilli dagskrá á safninu. Í Vardö í Noregi verður Galdrasýningin kynnt vandlega sama dag af Sigurði Atlasyni á alþjóðlegri ráðstefnu um galdra, fræði og ferðaþjónustu, en á þessari ráðstefnu eru þrír fulltrúar frá Galdrasýningunni staddir.