22/12/2024

Með táning í tölvunni – síðasta sýning á Hólmavík

Leikfélag Hólmavíkur sýnir hinn sprellfjöruga farsa Með táning í tölvunni í fimmta og síðasta skipti á Hólmavík í kvöld. Aðsókn að leikritinu hefur verið afbragðs góð og lætur nærri að áhorfendafjöldinn sé orðinn sá sami og íbúafjöldi á Hólmavík. Í verkinu segir frá Jóni Gunnari Scheving leigubílstjóra sem lifir tvöföldu lífi, því hann á tvær konur og börn með báðum. Þegar krakkarnir kynnast á netinu færist heldur en ekki fjör í leikinn. Framundan er leikferð um Vestfirði með leikritið, en Leikfélag Hólmavíkur hefur í gegnum tíðina stundað leikferðir af mikilli elju. Sýnt verður á Patreksfirði, Þingeyri og Bolungarvík 2.-4. júní, en 16. júní verður lokasýning í Trékyllisvík.