14/04/2024

Markaðsstofan hyggst gefa út fréttabréf

Markaðsstofa Vestfjarða hyggst nú gefa út fréttabréf til að fylgja eftir kynningu á Vestfjörðum til áhrifaaðila sem stýra með einhverjum hætti komu ferðamanna til Íslands. Þar má t.d. nefna ferðaheildsala, upplýsingastofnanir erlendis, Ferðamálastofu o.s.frv. Með fréttabréfinu hyggst Markaðsstofan koma á beinu sambandi við alla þessa aðila og auka flæði upplýsinga. Markmiðið er að í bréfinu verði fréttir víðs vegar af Vestfjörðum og að efnistök verði fjölbreytt. Jón Páll Hreinsson forstöðumaður Markaðsstofunnar segir að í fréttabréfinu sem verður á ensku verði ekki bara tilkynningar um hvað sé nýtt, heldur líka kynningar á því sem er verið að gera og svo þurfi líka skemmtilegar “ekki fréttir” af mannlífi og sérstöðu Vestfjarða.

"Oft á tíðum snýst þessi upplýsingagjöf nefnilega ekki endilega að gefa nákvæmar upplýsingar, heldur að koma með skemmtilegt sjónarhorn sem vekur eftirtekt og dregur svæðið fram í dagsljósið. Það er einmitt það sem við þurfum!" segir Jón Páll og bætir við: "Ég er þegar byrjaður að safna fréttum og væri þakklátur ef ferðaþjónustuaðilar myndu senda mér einhverjar fréttir frá Vestfjörðum. Eitthvað sem ykkur finnst vera merkilegt eða skemmtilegt. Ekki skemmir fyrir ef þið eigið myndir til að hafa með. Bara passa að myndirnar séu í ykkar eigu eða notkun þeirra sé frjáls."

Netfangið hjá Markaðsstofu Vestfjarða er jonpall@westfjords.is.