22/12/2024

Markaðsfræði á háskólastigi

Þann 7. febrúar n.k. mun verða tímamótadagur í sögu Háskólaseturs Vestfjarða. Þá hefst kennsla á námskeiði í markaðsfræði við Háskólasetrið. Námskeiðið er á vegum Símenntunar Háskólans í Reykjavík en alfarið kennt í Háskólasetrinu og verður sent út í fjarfundi til Hólmavíkur, Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Ekki er nóg með að námskeiðið verði alfarið kennt í Háskólasetrinu, heldur er einnig um að ræða vestfirskan kennara sem er Jón Páll Hreinsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða.
 

Um er að ræða námskeið sem veitir 3 einingar á háskólastigi og því eru þátttökuskilyrði stúdentspróf eða sambærilegt nám. Á námskeiðinu verður farið í grunnþætti markaðsfræðinnar. Nemendum verður kennt að skilja grunnþætti markaðssstarfs, greina markaðstæki, setja saman tilboð til viðskiptavina og fjallað verður um stýringu og framkvæmd markaðsþátta. Námskeiðið er mjög hagnýtt og er tilvalið fyrir þá sem langar til að byrja í háskólanámi en vilja ekki skrá sig í fullt nám. Frekari upplýsingar og skráning er að finna hér: http://www.hsvest.is/islenska/markadsfraedi.html.