28/03/2024

Strandamaður ársins 2006

Guðbrandur EinarssonÞótt nokkuð sé komið fram á nýja árið, hefur vefurinn strandir.saudfjarsetur.is ákveðið að standa fyrir kosningu á Strandamanni ársins þriðja árið í röð. Nú á að velja Strandamann ársins 2006 og gefst tækifæri til að skila inn tilnefningu fram að klukkan 12:00 á hádegi fimmtudaginn 25. janúar. Þeir sem vilja tilnefna Strandamann ársins 2006 skulu fylla út formið sem er að finna undir þessum tengli þar sem þeir tilgreina hver fær þeirra atkvæði og segja hvers vegna. Koma þarf fram í póstinum hver sendandinn er til að atkvæðið sé gilt. 

Allir Strandamenn nær og fjær eru hvattir til að taka þátt, en í síðari umferð verður valið á milli þeirra þriggja sem flestar tilnefningar fá.

Síðasta ár sigraði Guðbrandur Einarsson nuddari og göngugarpur á Broddanesi í kosningu um Strandamann ársins, en á árinu 2005 gekk hann hringveginn í kringum Ísland í átakinu Haltur leiðir blindan.

Sverrir Guðbrandsson á Hólmavík sigraði í kosningunni 2004, en hann gaf það ár út minningar sínar undir heitinu Ekkert að frétta.