23/12/2024

Margvíslegt góðgæti í skötuveislu á Café Riis

Ein drottins dýrðar skötuveisla var haldin á Café Riis á Hólmavík í kvöld og gladdi margan Strandamanninn og aðra sem þangað slæddust, sumir voru satt að segja komnir alla leið úr Danaveldi. Fyrir utan tindabikkjuna sem ýmist var verkuð á Súðavík eða Hólmavík var margvíslegt ljúfmeti á boðstólum, siginn fiskur og saltfiskur með hamsatólg, hákarl, selspik og reyktur selur. Rúgbrauð með smjöri kórónaði svo máltíðina. Í eftirrétt gátu gestir síðan valið um brauðsúpu með rjóma eða ábrysti með kanilsykri og krækiberjasaft. Nóg var að drekka og enginn fór svangur heim.

640-skata6 640-skata5 640-skata4 640-skata3 640-skata2 640-skata

Skötuveislan mikla á Café Riis – ljósm. Jón Jónsson