19/04/2024

Fundur samgönguráðherra vel sóttur

Um áttatíu manns mættu á fund sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hélt í gær á Café Riis á Hólmavík. Þar var rætt um fjarskiptamál og samgöngur, einkum á Ströndum og Vestfjörðum og víða komið við. Var ekki annað að heyra en þessi mál væru mönnum afar hugleikin. Sturla ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar um að nýr vegur um Arnkötludal yrði opnaður fyrir árslok 2008 og sagði að verkið yrði boðið út í heild sinni í kringum næstu mánaðarmót. Jafnframt sagði hann að áfram yrði unnið að vegabótum víða í sýslunni næstu árin og bylting yrði í gsm-væðingu strax á þessu ári.

Búið er að skrifa undir samninga vegna fyrri áfanga í gsm-væðingu vegakerfisins sem felst í að gemsarnir nái sambandi á hringveginum öllum og fimm fjallvegum að auki og er einn þeirra Steingrímsfjarðarheiði. Í næsta áfanga sem einnig verður boðinn út og byrjað að vinna að á árinu 2007 felst það verkefni að koma á gsm-sambandi á öllum helstu stofnleiðum og ferðamannastöðum sem er verið að skilgreina hverjir eru af Ferðamálastofu og fleiri aðilum um þessar mundir. Fram kom í svörum við fyrirspurnum að samband yrði í þeim áfanga komið á Djúpveg um sunnanverðar Strandir, en ekki kom skýrt fram hvaða breytingar yrðu í norðanverðri sýslunni.

Vinna við samgönguáætlun stendur nú yfir og á Alþingi eftir að samþykkja hana síðar í vetur. Því var ekki hægt að gefa nákvæm svör um aðrar framkvæmdir í samgöngumálum og forgangsröðun þeirra á svæðinu, en Sturla og fundarmenn flestir virtust sammála um að þörf væri á verulegu átaki. Varð fundarmönnum tíðrætt um Bjarnarfjarðarháls og einbreiða malbikið í Bitrunni í því samhengi.

Þá kom fram að líkur eru á að á þessu ári verði hafin sjónvarpsútsending á útsendingu Ríkissjónvarpsins í gegnum gervihnött og mun þá stafrænt sjónvarp nást á miðunum umhverfis Ísland og í dreifbýli þar sem ekki sést sjónvarp nú. Einnig kom fram að á næstu árum muni allir Íslendingar njóta háhraðanettengingar hvar sem þeir búa, að minnsta kosti sambærilegri við ADSL tengingu.

Umræður voru hinar líflegustu og margt sem brann á fundarmönnum, enda standa fjarskiptamál og samgöngukerfið á Ströndum öðrum landshlutum nokkuð að baki.