22/12/2024

Lokahnykkur fyrir Perluna

Á morgun laugardaginn 29. apríl,  kl. 15:00 – 16:30, verður haldinn kynningarfundur á Café Riis vegna þátttöku Strandamanna í stórsýningunni Perlan Vestfirðir sem verður haldin dagana 5. – 7. maí næstkomandi í Perlunni í Reykjavík. Þar verður farið yfir ýmis praktísk atriði sem varðar sýninguna og kynnt vinna undanfarinna vikna við skipulag og hönnun bássins. Sigurður Atlason á Hólmavík er verkefnisstjóri vegna þátttöku Strandamanna og Ásta Þórisdóttir hefur séð um hönnun og útlit bássins. Verið er að leggja lokahönd á vinnuna en ákveðið hefur verið að langþráður kynningarbæklingur um Strandir muni loks líta dagsins ljós, ef þátttaka í kostnaði verður næg.

Allir þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í kynningunni eru hvattir til að mæta á fundinn. Tölvupóstur var sendur í gær á alla þá sem nefndir hafa verið til sögunnar á Ströndum vegna þátttöku í Perlusýningunni, en það er mikilvægt að þeir sem ætla sér að taka þátt af heilum hug svari honum og láti vita af því, segir í fréttatilkynningu.