09/09/2024

Litli engill í Hólmavíkurkirkju

Hólmavíkurkirkja

Gera á aðra tilraun til að sýna söngleikinn Litli engill í Hólmavíkurkirkju föstudaginn 20. desember kl. 16:30, en um daginn varð að fresta sýningunni vegna veikinda fjölda barna. Eldri börnin í leikskólanum Lækjarbrekku og nokkrir krakkar úr fyrstu bekkjum Grunnskólans á Hólmavík á aldrinum 4-10 ára taka þátt í sýningunni, en um er að ræða samstarfsverkefni Hólmavíkurkirkju og leikskólans Lækjarbrekku. Söngleikurinn er þýddur úr ensku og sýndur nú í fyrsta skipti á íslensku. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis, en þeir sem vilja styðja Hjálparstarf kirkjunnar geta sett aura í bauk.