22/12/2024

Lítið lát á hvalakomum í Steingrímsfjörð

Hvalir hafa löngum gert sig heimakomna á Steingrímsfjörð en undanfarna mánuði hefur mikið borið á hvölum og fjöldi tilkynninga hafa borist um hvalasýnir. Í dag sást til þriggja hvala í Steingrímsfirði en tveir þeirra voru innst í firðinum. Annar hvalanna, sem voru hrefnur, dólaði sér í óratíma á svæðinu við og innan við Grænanes og Hrófberg og vakti töluverða athygli vegfaranda. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is var einn þeirra og var staddur við Grænanes þegar hvalurinn brá á leik. Þegar mest var þá voru fimm bílar í brekkunni og u.þ.b. 15 manns fylgdust með haffletinum af athygli. Hin hrefnan á þessum slóðum var á sama tíma utan við Selárósinn. Seinna um daginn sást til mikils hvalablásturs nokkuð djúpt út af Hveravík.

Strandagaldur safnar saman upplýsingum um hvalaferðir á Steingrímsfirði en stefnt er að því að hægt verði að markaðssetja Steingrímsfjörð sem ákjósanlegan stað til hvalaskoðunar úr landi og auka þannig við möguleika til afþreyingar ferðafólks og efla ferðaþjónustuna á svæðinu í leiðinni. Öflugum sjónaukum verður komið fyrir á nokkrum vel völdum stöðum við fjörðinn og ferðalöngum gefinn kostur á að njóta stórkostlegrar náttúru svæðisins og fylgjast með hvölum, fuglum og selum í sínu náttúrulega umhverfi.

Íbúar við Steingrímsfjörð hafa verið duglegir að tilkynna um hvalakomur á sérstökum vef sem hefur verið komið upp í þeim tilgangi. Þar birtast einnig upplýsingarnar jafnóðum og þær hafa verið tilkynntar.

Á þessari slóð er tilkynningarsíðan en hana er einnig að finna á tengli hér vinstra megin á strandir.saudfjarsetur.is og með því að smella hér þá er hægt að lesa allar tilkynningar sem hafa borist um hvalaferðir í Steingrímsfirði.

580-hvalur-100906 Hvalurinn við Grænanes í hádeginu í dag

580-ferdamenn-100906
Fjöldi manna fylgdust agndofa með hvalinum

580-hrofberg-100906
Hrófberg – hinum megin fjarðarins -Ljósm.: Sigurður Atlason