22/12/2024

Líður að göngum og réttum

Laugardaginn 22. september verður réttað í Skarðsrétt í Bjarnarfirði og er áætlað að fé fari að nálgast réttina upp úr hádegi. Það fer þó eftir ákafa smalanna og þrjósku sauðþrárra fjallafála sem leita munu allra ráða til að snúa á smalana sem þó munu að lokum hafa frækinn sigur og reka óþekktarskjáturnar til réttar ásamt öðru fé. Þá tekur við matartími þar sem smalar segja sína skoðun á hverjir hafi staðið sig svona eftir vonum og hverjir séu gjörsamlega óhæfir smalar. Þetta tekur nokkra stund því nóg verður af sviðakjömmum og hangikjöti og því miður hefur ein og ein hæna dottið í matarkörfuna nú á allra síðustu árum sem er að mati undirritaðs varla til bóta.

Þegar menn eru mettir verður hafist handa við sundurdrátt þar sem allir geta tekið þátt og dregið svifaseina og stirða hrúta eða fjörug lömb í dilka eftir mörkum eða bæjarnúmeri. Alltaf er hægt að fá liðsinni við að lesa mark eða fá upplýsingar um hvert skuli draga þær þrjósku fálur sem handsamaðar eru.

Vonandi langar marga að komast í göngur og þá er bara að hafa samband í tíma við bændur í Kaldrananeshreppi. Ávallt er þörf á góðum smala. Gangnadagar eru tveir í þessari lotu, á föstudag verða gengin Balafjöll og Hólsfjall, en á laugardag  Selárdalur, Tungukot og Hálsaleit.

Hver skyldi finna þessar í haust? – ljósm. Guðbrandur Sverrisson