29/03/2024

Leikið á Íslandsmóti í körfu á Hólmavík

Á morgun laugardag verður fjölliðamót á vegum KKÍ haldið í Íþróttamiðstöðinni Hólmavík. Keppt verður í 9. flokki kvenna, b riðli, en aldrei áður hefur verið keppt á Hólmavík í Íslandsmóti í körfubolta. Keppnin hefst klukkan 14:00 og krakkar úr Geislanum á Hólmavík keppa með liði Kormáks á Hvammstanga, en öflugt íþróttasamstarf hefur verið á milli þessara félaga undanfarin ár.

Leikjaniðurröðunin á laugardaginn er eftirfarandi:

     14.00 Haukar – Ármann/Þróttur
     15.15 Fjölnir – Kormákur
     16.30 Fjölnir – Ármann/Þróttur
     17.45 Haukar – Kormákur
     19.00 Kormákur – Ármann/Þróttur
     20.15 Haukar – Fjölnir

Í vetur hafa krakkar af Ströndum verið að taka þátt í Íslandsmóti og Bikarkeppni KKÍ í 10. flokki karla, 10. flokki kvenna, 9. flokki kvenna, 8. flokki karla og stúlknaflokki. Svo hefur einnig verið farið tvisvar með 7. flokk og yngri á fjölliðamót, bæði í Grafarvogi og Keflavík. Allt er þetta gert í samstarfi við Kormák á Hvammstanga, en á Hólmavík eru tæplega 30 krakkar að æfa körfu.

Allir eru hvattir til að koma og horfa á.