03/05/2024

Leikfélagið frumsýnir í kvöld

Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir í kvöld gamanleikritið Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen í Bragganum á Hólmavík og hefst kl. 20:00. Þetta er 31. stóra verkefni Leikfélagsins frá upphafi en Leikfélag Hólmavíkur var stofnað þann 3. maí 1981, svo það fagnar brátt 25 ára afmælisdegi sínum. Fjórir leikarar taka þátt í þessari uppfærslu leikfélagsins auk fjölda annarra sem ævinlega þarf til að koma upp einu leikriti. Leikstjóri er hin góðkunna leikkona Kolbrún Erna Pétursdóttir. Önnur sýning verður á laugardaginn á sama tíma og þriðja sýning annan í páskum.

Gunnar B. Melsted, Úlfar Örn Hjartarson, Rúna Stína Ásgrímsdóttir og Jóhanna Ása Einarsdóttir leika í sýningunni og eins og venjulega taka margir félagar í Leikfélaginu þátt í vinnu við sviðsmynd, búninga, leikskrá, förðun og önnur verkefni sem tilheyra svona uppsetningu. Eins og venjulega hugar Leikfélagið svo á leikferðir með verkið, en leikfélagið er þekkt fyrir hversu víðförult þar er. Hér í nágrenninu er hugmyndin að fara í Króksfjarðarnes, Drangsnes, Árneshrepp og á Hvammstanga, en ætlunin er líka að heimsækja Ketilás í Skagafirði, Bolungarvík, Þingeyri og Mosfellsbæ og sýna þar.