22/12/2024

Laupur á sláturhúsþaki

Hrafnslaupur á þaki sláturhússinsHrafninn hefur gert sér laup á þaki sláturhússins á Hólmavík en mikið hrafnager hefur verið innanbæjar undanfarna mánuði. Nú virðist sem rómantíkin hafi heldur betur blómstrað hjá þessum fuglum en það er afar óalgengt að hrafnar geri sér hreiður nálægt mannabústöðum, hvað þá inni í þéttbýli. „Það er vitað um eitt dæmi norður á Langanesi að hrafnapar gerði sér laup í yfirgefinni byggingu rétt við Kópasker, en það var því miður steypt undan þeim," segir Kristinn H. Skarphéðinsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands þegar tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is innti hann eftir hvort um algengan viðburð væri að ræða.

„Þetta eru mikil tíðindi og það er greinilegt af ljósmyndunum að dæma að þetta er ungt par, trúlega veturgamalt en við getum ekki greint það nákvæmlega fyrr en við mætum á staðinn," bætti Kristinn við en hann mun koma við annan mann nú um helgina og gera vistmælingarannsóknir á umhverfi fuglanna. „Ef þetta er ungfuglar þá verðum við að grípa til einhverra ráðstafanna og loka á umferð í 100 metra radíus út frá laupnum. Veturhrafnar þurfa talsvert meira næði en þeir eldri."

Gunnlaugur Sighvatsson framkvæmdastjóri Hólmadrangs segir að þetta geti skapað nokkur óþægindi fyrir reksturinn en frystigeymslur rækjuvinnslunar eru í sláturhúsinu. „Við munum að sjálfsögðu reyna að gera okkar til að verja hrafnana fyrir truflunum og nota frekar rafmagnslyftara og hlaða á flutningabílanna í hæfilegri fjarlægð frá laupnum."
„Líklega er um að ræða hrafnana sem Galdrasýning á Ströndum kom til bjargar í fyrra, þær Galdra-Manga og Galdra-Imba," segir Sigurður Atlason á Galdrasýningunni, „en okkur var farið að gruna í sumarlok að Imba væri karlfugl. Þetta er alveg æðislegt og vonandi fá þeir bara frið og maður gæti haldið að þeir þykist vera storkar," bætir hann hlæjandi við „en þeir gabba okkur ekki því við vitum að storkar eru hvítir." Því má bæta við að storkar eru alfriðaðir á Íslandi.
Hólmvíkingar og aðrir sem leið eiga niður á  tangann eru beðnir um að nálgast ekki sláturhúsið um of á næstunni og vera þar alls ekki með háreysti.

.

.