09/09/2024

Krakkaskari tók þátt í veiðikeppninni

{mosvideo xsrc="dorgveidikeppni-06" align="right"}Fjöldi manns var á höfninni á Hólmavík fyrir hádegi á Sjómannadaginn að taka þátt og fylgjast með árlegri Marhnútaveiðikeppni sem Björgunarsveitin Dagrenning stendur fyrir. Í keppninni er æðsta markmiðið að veiða stærsta marhnútinn en einnig eru veitt verðlaun fyrir stærsta og minnsta fiskinn og mestan landaðan afla. Kvikmyndatökumaður strandir.saudfjarsetur.is fylgdist með keppninni um stund og var greinilegur veiðihugur í keppendum, þó marhnúturinn léti lítið á sér kræla. Kolinn var algengastur aflinn og einn og einn þorsktittur leit við á önglum marhnútaveiðikappana.

Fréttavefnum hafa ekki borist spurnir af hverjir báru sigur úr býtum, enda skiptir það kannski minnstu máli í leik sem allir hafa gaman af.