29/04/2024

Kaldar kveðjur frá Sturlu

Aðsend grein: Sigurjón Þórðarson, þingmaður
Við getum ekki liðið það að samgönguráðherra skerði póstþjónustuna frekar á landsbyggðinni. Hún er ein af lífæðunum og við verðum að standa vörð um hana. Það tekst vonandi með sameinuðu átaki.
– – –
Það eru hrollkaldar staðreyndir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa reynst íbúum landsbyggðarinnar og þá sérstaklega Vestfirðingum mjög illa. Fólki hefur fækkað gífurlega og má rekja fækkunina beint til stjórnarathafna flokkanna, sérstaklega í sjávarútvegsmálum. Fleira má nefna, s.s. hækkun rafmagnsverðs og þann gífurlega vöxt sem hlaupið hefur í bákn hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, en sá vöxtur hefur nær eingöngu farið fram á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur leitt til enn meiri byggðaröskunar og þenslu sem sem hefur komið úflutningatvinnugreinunum á landsbyggðinni illa.

Þetta virðingarleysi ríkisstjórnarinnar fyrir byggðamálum birtist í stóru sem smáu. Stuttu fyrir jólin bárust þær fréttir að Íslandspóstur hygðist skerða þá þjónustu sem íbúum Ísafjarðardjúps er veitt en Sturla Böðvarsson, 1. þingmaður Vestfirðinga, fer með eignarhald á Íslandspósti fyrir hönd almennings.

Ríkisforstjóri Íslandspósts Ingimundur Sigurpálsson tilkynnti um breytta skipan en gerði jafnframt ljóst að breytingarnar væru í samræmi við einhverjar reglur. Við þingmenn sjórnarandstöðunnar í Norðvesturkjördæminu höfum bæði leitað upplýsinga og reynt að ná fundi með hæstvirtum ráðherra Sturlu Böðvarssyni um skerðingu á póstþjónustu í Djúpinu. Í svarbréfi frá ráðherranum kemur fram að hann telji enga sérstaka þörf á því að ræða þessa skertu þjónustu, hvorki við óbreytta þingmenn né að því er virðist við íbúa svæðisins. Þingmaðurinn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins greinir hins vegar frá því að hann hafi og ætli að halda áfram að ræða um málið við embættismenn og forstjóra ríkisstofnana í Reykjavík, s.s. Póst- og fjarskiptastofnunar, til þess að fá upplýsingar og ræða einhverjar reglur sem í gildi eru.

Vestfirðingar eiga að bregðast hart við og standa með Djúpmönnum í þessu máli allir sem einn þar sem þessi skerðing á þjónustu er hluti af stefnu stjórnvalda. Þessar vikurnar er verið að skerða þjónustuna í Djúpinu og á komandi vikum má vel búast við að önnur svæði verði fyrir barðinu á stjórnarstefnunni.

Að lokum er rétt fyrir Vestfirðinga að íhuga hvort það sé með nokkru móti réttlætanlegt að greiða fulltrúum stjórnarflokkanna atkvæði sitt í komandi sveitarstjórnarkosningum næsta vor, flokkum sem hafa staðið leynt og ljóst að því að skerða þjónustu og fækka íbúum Vestfjarða.