26/12/2024

Kaffihlaðborð og fjölskyldubolti

Fyrsta kaffihlaðborð sumarsins og jafnframt sjómannadagskaffi verður haldið í Sauðfjársetrinu í Sævangi á morgun sunnudag og stendur frá 14-18. Einnig stefna Sauðfjársetursmenn að því að spila fjölskyldufótbolta kl. 16 og verður líklega spilað á eitt mark, til að ekki fari illa hjá æðarkollunni frú Kollfríði sem verpti á miðjum Sævangsvelli og er enn ekki búin að unga út. Fyrstu æðarungarnir fóru annars á flot í bæjarvíkinni á Kirkjubóli síðasta dag maímánaðar þetta árið og víða má sjá tjalds- og þrastarunga og fleira ungviði.  Allir sem áhuga hafa eru velkomnir til að taka þátt í fjölskylduboltanum þar sem eldri og yngri spila saman, foreldrar og börn, afar og ömmur.