22/12/2024

Jólaóværan logaði af bræði

Síðastliðinn sunnudag komu góðir gestir frá vinabænum Hole til Hólmavíkur og afhentu kauptúninu jólatré sem þau höfðu í farteskinu. Í för var kennari ásamt tveimur nemendum og báðu fyrir góðar kveðjur til Hólmvíkinga. Eftir að kveikt hafði verið á trénu þá var þeim boðið á Galdrasafnið á Hólmavík þar sem galdramaður tók á móti þeim með þeirri frómu ósk að aðstoða bæjarbúa við að særa burt allar hugsanlegar óværur fyrir hátíðina. Það er skemmst frá því að segja að kraftur og atgangur Norðmannana var svo mikill að svo virðist sem jólaóværan mikla hafi gjörsamlega ærst og fuðrað upp á leið sinni norður og niður. 

Undarlegur óútskýrður eldur kom upp í galdragarðinum að særingum loknum og var ekki laust við að mönnum yrði brugðið sem von er þegar staðið var augliti við sjálfan Pokurinn. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að friðarkerti sem logaði í skjóli inni í hvalhaus í garðinum hafði aðstoðað við að fæla óværuna burt.


Norskir vinir frá Hole í heimsókn á Hólmavík ásamt galdramanninum.


Andskotinn logar af bræði og skýtur logandi og illilegu augnaráði meðan hann fuðrar upp.