15/01/2025

Jólahlaðborð á Café Riis

Café RiisHið vinsæla jólahlaðborð á Café Riis á Hómavík verður í boði á föstudags- og laugardagskvöld um næstu helgi. Borðhaldið hefst klukkan 20:00 og kokkurinn er Strandamönnum af góðu kunnur en hann hefur séð um eldhúsið hjá Café Riis mörg undanfarin ár. Þeir sem til þekkja vita að hann kann sannarlega að kitla bragðlauka sælkeranna.

Jólahlaðborðið á Café Riis hefur verið einn af föstu viðburðum fyrir jólin á Hólmavík frá því að Café Riis opnaði árið 1996. Það eru ennþá laus nokkur sæti bæði kvöldin svo það er vissara að hafa hraðan á og tryggja sér þátttöku í tíma.
Maður verður eitthvað að lesa, annars verður maður ekkert nema magi og munnur, skrifaði skáldið Stefán G. Stefánsson. En það er hægt að grípa í bók og myndast við að næra sálina eftir stórkostlegt ofát á Café Riis og sætta sig við að maturinn er mannsins megin, ef allt fer á versta veg. Héraðsbókasafnið á Hólmavík er opið til kl. 21:00 á fimmtudagskvöld. Kvöldið áður en matarveislan byrjar.