22/12/2024

Íslandsmeistaramótið í hrútadómum sunnudaginn 19. ágúst

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er svo stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum, sem verður haldið sunnudaginn 19. ágúst og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð. Ester Sigfúsdóttir framkvæmdarstjóri Sauðfjársetursins segir að undirbúningur fyrir helgina gangi mjög vel: „Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum, en keppt er bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara. Þetta er alltaf mjög skemmtilegt svo við erum bara glöð og spennt og vonumst eftir góðri mætingu,“ segir Ester hress og hvetur að lokum alla til að leggja leið sína á Strandir á sunnudaginn og taka þátt í þessum skemmtilega degi.

Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Einnig er stórskemmtilegt happdrætti og eru líflömb í vinning. Kostar miðinn 500 kr. og geta þeir sem komast ekki á staðinn keypt sér miða í gegnum Facebook síðu Sauðfjársetursins eða hjá Ester í síma 693-3474. Vinningar í happdrættinu eru hrútur frá Ernu Fossdal og Jóni Stefánssyni á Broddanesi, hrútur frá Barböru Guðbjartsdóttur og Viðari Guðmundssyni í Miðhúsum, hrútur frá Hafdísi Sturlaugsdóttur og Matthíasi Lýðssyni í Húsavík, gimbur frá Lilju Jóhannsdóttur og Guðbrandi Sverrissyni á Bassastöðum og gimbur frá Indriða Aðalsteinssyni á Skjaldfönn sem orti vísu með sínu líflambi:

Ef þig heillar flekkótt fé,
finnst sá litur bestur sé.
Eina gimbur á ég hér
sem eflaust myndi líka þér.

Á síðasta ári sigraði Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í flokki vanra, í öðru sæti var Árný Huld Haraldsóttir á Bakka í Reykhólahreppi og í þriðja sæti varð Ragnar Bragason á Heydalsá. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár og þess fyrir utan eru veglegir vinningar. Þetta árið eru það fyrirtækin Radisson BLU Saga Hotel, Láki Tours, Ístex, SAH afurði, Sætar syndir, Hólmadrangur, Farmers Market, Þaraböðin, Sætt og salt, Varma, Toro á Íslandi, Saltverk, Náttúrubarnaskólinn og Sauðfjársetrið sem styrkja keppnina um vinninga.

Á Sauðfjársetrinu eru nú uppi tvær sérsýningar, fyrir utan fastasýningu safnsins sem ber yfirskriftina Sveitafólk og sauðfé á Ströndum. Á listasviðinu er sýningin Álagablettir og í sérsýningarherbergi er sögusýningin Sumardvöl í sveit. Frítt er á allar sýningar Sauðfjársetursins á sunnudeginum. Í haust verður opnuð ný sýning á Sauðfjársetrinu og tengist sú sýning 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar og hefur yfirskriftina Strandir 1918.