22/12/2024

Ísland verður altengt

Sturla Böðvarsson svarar Helgu Völu Helgadóttur um háhraðatengingar.
Frambjóðendur Samfylgingarinnar hafa síðustu dagana verið að skrifa í blöð og á vefsíður og vekja athygli á ýmsu sem unnið er að og skiptir vissulega miklu máli fyrir íbúa landsbyggðarinnar ekki síður en íbúa höfuðborgarsvæðisins. Og sumir þeirra virðast koma af fjöllum þegar þeir kynna sér aðstæður og viðfangsefni okkar þingmanna landsbyggðarinnar.

Umfjöllunarefni Helgu Völu Helgadóttur fjölmiðlakonu og frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi  í nýlegri grein í Fréttablaðinu um fjarskipti og háhraðatengingar gefur mér ágætt tækifæri til að minna á það sem unnið er nú að varðandi þennan málaflokk.

Hröð þróun fjarskiptanna

Fyrst minni ég á að í fjarskiptunum hefur verið mikil og hröð þróun á öllum sviðum hin síðari ár. Við Íslendingar höfum verið fljótir að tileinka okkur fjarskipta- og upplýsingatæknina og nýtum hana ekki síst til að færa okkur á landsbyggðinni nær miðju samfélagsins þar sem þjónustan og mestu viðskiptatækifærin eru. Sumir stjórnmálamenn tala þannig og skrifa eins og Síminn í ríkiseign hafi verið eina tryggingin fyrir því að landsbyggðin gæti notið fjarskiptatækninnar. Vinstri grænir hafa einkum verið duglegir við að halda þeirri fyrru á lofti. Þeir hafa ýtt því til hliðar að við lifum á hinu Evrópska efnahagssvæði þar sem aðild ríkisins að samkeppnismarkaði, svo sem fjarskiptamarkaði, eru strangar skorður settar og ríkisstuðningur er bannaður nema með ströngum reglum þar sem ekki verður við komið samkeppni. Þótt Síminn hafi verið seldur var langt því frá að hann hafi lokið uppbyggingu á fjarskiptakerfi landsmanna í eitt skipti fyrir öll. Því verki þarf að halda áfram og við þurfum stöðugt að bæta við þessa uppbyggingu eftir því sem kröfur og tækni breytast. Vert er að minna á og ítreka að ríkið getur ekki lengur staðið í samkeppnisrekstri enda forboðið á hinu Evrópska efnahagssvæði að almennur rekstur fjarskipta sé á hendi ríkisvaldsins. Sem betur fer hafa fleiri fyrirtæki haslað sér völl á fjarskiptamarkaði og bjóða fram þjónustu sína við landsmenn. Mjög framsækin  löggjöf hefur tryggt þá framvindu í þágu notenda fjarskiptaþjónustu.

Fjarskiptaætlun markar stefnuna

Til þess að tryggja sem best áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptakerfanna um land allt ákvað ríkisstjórnin að fara þá leið sem fær væri með hliðsjón af reglum fjarskiptamarkaðrins. Með stofnun Fjarskiptasjóðs og með því að Alþingi samþykkti Fjarskiptaáætlun beitti ég mér fyrir að fara þær leiðir sem ég taldi líklegar til þess að tryggja sem best hagsmuni hinna dreifðu byggða.

Umfangsmikil verkefni eru framundan sem meðal annars verða fjármögnuð með þeim 2,5 milljörðum króna sem lagðar voru í Fjarskiptasjóð þegar Síminn var seldur. Hlutverk sjóðsins er einkum að fjármagna áframhaldandi uppbyggingu GSM-farsímanetsins, að sjá til þess að sjónvarpssendingar RÚV um gervihnött verði aðgengilegar öllum landsmönnum og sjómönnum á miðunum umhverfis landið og í þriðja lagi að allir landsmenn njóti háhraðatengingar.

Öll þessi verkefni eru nú í skilgreindum farvegi samkvæmt ákvörðun Alþingis með samþykkt fjarskiptaáætlunar sem ekki var gerð athugasemd við. Við höfum þegar afhent útboðsgögn í kjölfar forvals vegna útboðs á þéttingu GSM-farsímanetsins á hringveginum og fimm fjallvegum. Næsta verkefni er að ganga frá samningum varðandi dreifingu á stafrænu sjónvarpi og hljóðvarpi um gervihnött til strjálbýlla svæða og á miðin við landið og er stefnt að því að þeim samningum ljúki fyrir áramót.

Þriðja verkefnið er háhraðatengingar fyrir alla landsmenn. Er nú verið að kortleggja hvaða svæði markaðsaðilar geta ekki sinnt og munu koma í hlut Fjarskiptasjóðs að fjármagna. Jafnframt þarf að skilgreina gæðakröfur og kanna hvaða útboðsleið yrði farin. Vert er að minna á að víðast hvar munu fjarskiptafyrirtækin, án atbeina Fjarskiptasjóðins, byggja upp háhraðaþjónustu. Símafyrirtækin eru þegar búin að því með svokölluðum ADSL tengingum.  Þá er vert að minna á það að með útboði á síma- og fjarskiptaþjónustu ríkisstofnana er stefnt að því að hraða uppbyggingu afkastamikilla tenginga um landið allt.

Netsambandið skiptir miklu máli

Af þessu má sjá að unnið er hörðum höndum að því að koma þessum málum í viðunandi horf enda rétt sem greinarhöfundur bendir á að netsamband skiptir mjög miklu máli varðandi alla aðstöðu okkar til náms, starfa og búsetu.  Ég er mjög stoltur af því að hafa fengið tækifæri til þess að tryggja þá framvindu í þágu allra landsmanna  sem ég hef greint frá hér að framan og mun leggja ríka áherslu á að það megi takast. Ég vænti þess að kjósendur tryggi með öflugum stuðningi við mín sjónarmið í næstu kosningum þá framkvæmd. Fordómar Vinstri grænna gagnvart markaðsaðgerðum annars vegar og togstreita milli þingmanna Samfylkingarinnar hinsvegar gætu komið í veg fyrir að okkur takist að tryggja það að Ísland verði altengt. Ég vona að svo verði ekki og mun vinna í samræmi við þá stefnu sem ég hef markað og meirihluti alþingismanna hefur samþykkt .

——————————–
Sturla Böðvarsson – www.sturla.is
Höfundur er samgönguráðherra