29/04/2024

Í fréttum fyrir 60 árum

Undanfarna mánuði og ár hefur fyrirtækið Sögusmiðjan á Kirkjubóli verið að safna saman margvíslegum gömlum heimildum og myndum sem tengjast Ströndum, bæði úr bókum, blöðum og tímaritum. Síðustu mánuði hefur áhersla verið lögð á efni frá fyrri hluta 20. aldar og í safninu er nú margt forvitnilegt að finna, bæði tengt atvinnulífi og mannlífi. Í tengslum við þetta auglýsir Sögusmiðjan eftir ljósmyndum sem tengjast Ströndum frá tímabilinu 1900-1950 og eru menn beðnir að hafa samband í sogusmidjan@strandir.saudfjarsetur.is geti þeir lánað slíkt myndefni til skönnunar. Fréttin hér á eftir sem tengist atvinnusögu Drangsness birtist í Morgunblaðinu fyrir 60 árum, undir lok heimsstyrjaldarinnar síðar, þann 24. júlí 1945:

Tveir sænskir vjelbátar komnir hingað

TVEIR fyrstu vjelbátarnir, sem keyptir eru í Svíþjóð, komu hingað til bæjarins í gærmorgun. Áður var einn sænskur bátur kominn til hafnar í Siglufirði. Eru þetta bátar sem keyptir voru fullbúnir. Vöktu þeir athygli manna við höfnina í gærmorgun og var fjöldi manna að skoða þá í gærdag. Eigendur þessara báta eru: Verslunarfjelagið Drangsnes í Steingrímsfirði og Ingvar Pálmason, skipstjóri o.fl.

„Angelía“

Bátur Verslunarfjelagsins Drangsnes heitir „Angelia“ og eru eigendur þessa fjelags þeir Kristján Einarsson, framkvæmdastjóri og Ólafur H. Jónsson, forstjóri í Alliance. Báturinn er rúmlega 55 smálestir og hefir 180 ha. Scandiavjel. Ganghraði er 11 sjómílur. Báturinn, sem [er] tveggja ára gamall hefir togútbúnað og dragnótatæki. Í lest bátsins eru kælitæki, sem sennilega verða tekin úr bátnum, að minnsta kosti yfir síldveiðitímann.

Báturinn fer strax á síldveiðar.

Sænsk áhöfn sigldi bátnum hingað til lands.

„Rex“

Hinn báturin heitir „Rex“. Er hann 73 smálestir með 160 ha. vjel. Er þetta stór og föngulegur bátur og var einn af stærstu fiskibátum Svía. Skipið er 12 ára gamalt.

Drangsnes, séð frá Kirkjubóli – ljósm. Jón Jónsson